Næsti lausi gjaldkeri

Gjaldkeri í vandræðumHúsfundir eru allra manna mein - ég er hinsvegar þeirrar skoðunar að maður verði að mæta á slíka fundi til þess að vera ekki álitinn einn af skussunum sem skulda húsgjöld og vilja láta alla aðra um ákvarðanatöku sem varðar húsnæði mitt. Ég velti hinsvegar mikið fyrir mér hvort ég ætti að mæta á húsfundinn í kvöld, þar sem Dögg er í London og svona... ekki hægt að skilja stelpuna eftir eina og svona. Nema hvað, ég kem henni í háttinn og labba svo niður í hjólageymslu. Á leiðinni virðist ég jafnframt hafa ferðast þrjú ár aftur í tímann, til þess augnabliks þegar ég mætti á fyrsta húsfundinn í Ástúni 2: þar var gjaldkeri húsfélagsins að láta af störfum, og ég - nýbúinn í húsinu - var "kjörinn" í starf gjaldkera án þess að hafa boðið mig fram til starfans, og sinnti því til brottflutningsdægurs.

Það sama átti sér stað í kvöld... ég átti mér einskis ills von, mætti fjórum mínútum of seint á fundinn og fékk afhent afrit af uppgjöri húsfélagsins fyrir árið 2006. Núverandi (þáverandi) gjaldkeri hefur einmitt selt íbúðina sína og eins og fyrir þremur árum stóð til að kjósa eftirmann í stöðuna. Formaðurinn tók rúnt á liðinu og enginn bauð sig fram, eins og gefur að skilja, en þegar kom að því að "fá ábendingar" stóðu öll spjót að mér, sem nauðugur viljugur tók verkið að mér. Fullt af fólki, sem ég er viss um að veit ekki einu sinni hvað ég heiti, benti laumulega á mig, eins og það væri að gera formanninum greiða með ábendingunni. Meira að segja celeb-ið í hópnum, gaurinn úr Esso-auglýsingunum, slapp fyrir horn þrátt fyrir djarfa atlögu formannsins að honum. Þar fyrir utan voru nokkrar konur sem komust pent upp með að segja "nei" þegar bent var á þær.

Hvað það er við mig, sem veldur því að fólk hefur óbilandi trú á mér í stöðu gjaldkera, veit ég ekki... kannski vita einhverjir í húsinu að ég vinn hjá Kaupþingi, en algengur misskilningur virðist sá að allir starfsmenn Kaupþings séu hagfræðimenntaðir viðskiptafræðingar sem eru með puttann á púlsinum hvað varðar gjaldmiðlakrossa, afleiðusamninga, rafrænar skilagreinar og ársuppgjör og afkomuspá hlutafélaga.

Ég er hinsvegar bara óbreyttur tölvunörd sem veit ekkert um slíkt - ég er hinsvegar þrautreyndar notandi Netbanka Kaupþings, og kannski var það maðurinn sem leitað var að í starfið... ég mætti jú 4 mínútum of seint á fundinn og hef misst af "er-einhver-bankastarfsmaður-hér?"-klausunni.

Heilsið því nýkjörnum gjaldkera húsfélagsins að Álfkonuhvarfi 29-31, sem hlaut ÖLL atkvæði.


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hannibal

Þannig að þú er kominn með aðgang að feitum tékkareikningi...?  Ég veit um eina leið sem gæti bundið enda á þessi gjalkerastörf þín í Álfkonuhvarfi 29-31, og kemur líklega til með að valda því að þú þarft aldrei að gegna stöðu gjaldkera neins staðar aftur...!

Hafðu bara samband ef þú ert áhugasamur. 

Hannibal, 26.1.2007 kl. 09:56

2 Smámynd: Birkir Vagn Ómarsson

Erling ég held að ég viti hvað varð til þess að þú varst kosinn gjaldkeri.

kvót: gjaldmiðlakrossa, afleiðusamninga, rafrænar skilagreinar og ársuppgjör og afkomuspá hlutafélaga.

Það eru svona orð sem að enginn annar í húsinu veit hvað þýðir:) Ef það værin einhver í húsinu minu sem vissi hvað þetta væri þá mundi ég ráða hann sem gjaldkera...

later

Birkir Vagn Ómarsson, 26.1.2007 kl. 11:17

3 Smámynd: Ólafur fannberg

til hamingju hehehehe með stöðuna

Ólafur fannberg, 26.1.2007 kl. 23:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband